Starfsemi

Markaðsrýni er þekkingarfyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu við fyrirtæki og stofnanir á sviði auglýsingagerðar og birtinga.
Markaðsrýni veitir faglega þjónustu í formi ráðgjafar sem miðar að því að auka virkni auglýsinga og arðsemi þess fjár sem varið er til birtinga.

Við bjóðum viðskiptavinum okkar auk þess ráðgjöf við að móta stefnu fyrir birtingar eða endurskoðun hennar, aðstoð við val á auglýsingastofu og birtingahúsi ásamt samningagerð við þessa aðila og fjölmiðla.

Tilgangur

Við veitum viðskiptavinum okkar ráðgjöf sem stuðlar að aukinni arðsemi af fé sem er varið til auglýsingagerðar og birtinga.

Sérstaða

Markaðsrýni er fyrsta og eina fyrirtækið á Íslandi sem býður upp á úttekt á hagkvæmni auglýsingabirtinga (e. media auditing).
Önnur sérstaða fyrirtækisins er aðstoð við val á auglýsingastofu eða birtingahúsi ásamt samningagerð við sömu aðila.
Sérstaðan er byggð á yfirgripsmikilli þekkingu, sem m.a. grundvallast á rannsóknum en jafnframt reynslu af íslenska auglýsingamarkaðnum.

Okkar sýn

Spurning, sem oft brennur á auglýsendum, er hvort auglýsinga- og birtingafé þeirra sé vel varið og skili tilætluðum árangri. Við hjá Markaðsrýni lítum svo á að allt fé, sem varið er til auglýsingagerðar og birtinga, beri að fara með sem fjárfestingu. Því bjóðum við m.a. úttekt á því hvort viðskiptavinir okkar geti varið þeim fjármunum betur sem settir eru í þessa tvo liði.

Reynslan frá Bretlandi hefur sýnt að ráðgjöf af því tagi sem Markaðsrýni býður sparar auglýsendum að meðaltali 10–15% af birtingarkostnaði miðað við sama árangur. Reynsla okkar af íslenska markaðnum segir okkur að líklegt sé að þessi sparnaður gæti verið mun meiri hér á landi.

Íslensk fyrirtæki verja oft háum fjárhæðum í auglýsingagerð og birtingar en nýting þess fjár er oft með veikustu hlekkjunum í fjármálastjórnun þeirra. Það getur ráðið úrslitum um samkeppnisstöðu fyrirtækja hvort auglýsingarnar og birtingar þeirra skili árangri.

Markmiðið með auglýsingum er fyrst og fremst að auka tekjur og þar með hagnað. Til þess að  markmiðið sé raunhæft, þarf auglýsingin að hreyfa við neytendum auk þess sem hún þarf að birtast þeim í réttum miðlum og með réttum hætti. Það er því brýnt að endurskoða auglýsinga- og birtingarstefnu fyrirtækis árlega, eins og venja er um hefðbundna endurskoðun á bókhaldi.